Áfangar, áfangaheiti og þrepaskipting

Áfangar

Áfangi kallast skilgreint námsefni í tiltekinni grein í ákveðinn tíma. Þegar nemandi hefur þreytt próf í námsefninu eða staðist símat þá hlýtur nemandi, sem staðist hefur áfangann með tilskildum árangri, ákveðinn einingarfjölda fyrir.

Nemendur geta að nokkru leyti ráðið því hvaða áfanga þeir leggja stund á hverjum tíma, þeir geta hagað námshraða sínum að eigin vali, innan vissra marka og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum s.s. að uppfylltum reglum um undanfara áfanga.


Hæfniþrep

Námi hjá Nýju Akademíunni verður skipt í fjögur hæfniþrep, þar sem hærri þrepin byggja á þeim lægri. Fyrstu þrjú þrepin teljast til grunn- og framhaldsskólastigs, en fjórða þrepið telst á mörkum framhaldsskóla og háskóla. Hæfniþrepin mynda þannig ramma um mismunandi kröfur við námslok.

Allir áfangar gefa til kynna heiti námsgreinar, hæfniþrep, lýsandi heiti áfanga og einingarfjölda samkvæmt nýju einingarkerfi. Dæmi: ÍSLE2A05 þ.e. ÍSLE (íslenska), 2 (á öðru þrepi), L (lestur og ritun), 05 (fjöldi nýrra eininga).

Fyrsti tölustafur áfanga sýnir á hvaða þrepi áfanginn er (1,2,3,4). Þrepaskiptingin gefur til kynna stigvaxandi kröfur í náminu s.s. STÆR1A05, STÆR2B05, STÆR3C05 og STÆR4D05.

Nemandi þarf að ljúka áfanga á 1.  þrepi áður en hann getur innritast í áfanga í sama fagi á öðru þrepi. Að sama skapi þarf nemandi að ljúka áföngum á öðru þrepi til að mega hefja nám í þriðja þreps áfanga í sama fagi, sbr. dæmið hér fyrir ofan í stærðfræði. Nemandinn þarf að ljúka STÆR1A05 og STÆR2B05 áður en hann getur hafið nám í STÆR3C05.

Bókstafirnir A, B, C, D, ... í heiti áfanga tákna efni áfangans, eins og sjá má í áfangalýsingum. Þeir segja ekki til um röð áfanga, því meginreglan er sú, að unnt er að taka þá í hvaða röð sem er, hafi nemandi lokið þrepinu á undan. Tölustafirnir tveir í lok áfangaheitis segja til um hversu margar einingar nemandi fær fyrir að ljúka áfanganum.

Í Nýju Akademíunni er fullt nám á ári reiknað sem 60 fein.


Uppbygging námsbrauta

Námsbrautir Nýju Akademíunnar byggjast upp á kjarna/brautarkjarna og frjálsu vali. Nemendum gefst síðan kostur á að auka þekkingu sína í ákveðnum fögum með frjálsa valinu. Frjálsa valið veitir nemendum möguleika á að velja áfanga háð áhugasviði hvers og eins.


Námsgögn

Bókalista verður unnt að nálgast hér á heimasíðu Nýju Akademíunnar. Annað námsefni má jafnframt nálgast í kennslukerfinu Moodle.

Námsefni er margskonar s.s.:

  • bækur og tímarit,

  • rafræn námsgögn á netinu,

  • vefsíður með efni, sem öllum verður frjálst að nota,

  • talglærur,

  • töflukennsla,

  • hljóðskrár,

  • myndbönd og upptökur eru dæmi um rafræn námsgögn, sem framleidd verða hjá Nýju Akademíunni.
Last modified: Wednesday, 12 October 2016, 6:27 PM