Meginsvið almennrar menntunar

Lykilhæfni og grunnstoðir námsins

Gerð er krafa um að framhaldsskólar skipuleggi námsbrautir sínar þannig, að ákveðnum lykilhæfnimarkmiðum verði náð. Þessi markmið eru níu talsins og voru höfð til hliðsjónar þegar brautirnar, sem í boði eru í skólanum voru skipulagðar.

Þessir lykilhæfniþættir eru:

 • námshæfni,
 • heilbrigði,
 • skapandi hugsun og hagnýting þekkingar,
 • jafnrétti,
 • lýðræði og mannréttindi,
 • menntun til sjálfbærni,
 • læsi, tjáning og samskipti á íslensku,
 • læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum,
 • læsi, tjáning og samskipti um tölur og upplýsingar.

 

Það er mat skólameistara Nýju Akademíunnar, að öllum þessum lykilhæfniþáttum séu gerð skil í heildarskipulagi brauta skólans og að þessir þættir komi jafnframt berlega í ljós í öllum áfangalýsingum, þótt augljóst sé að þau nást ekki öll í hverri námsgrein.

Allt skólastarfið skal byggjast á sex grunnþáttum.

Þessir grunnþættir eru:

 • læsi í víðum skilningi,
 • sjálfbærni,
 • heilbrigði og velferð,
 • lýðræði og mannréttindi,
 • jafnrétti,
 • sköpun, skapandi starf.

 

Nýju Akademían hefur sett sér það markmið, að flétta lykilhæfniþætti og grunnþætti inn í alla áfanga skólans. Áfangar skólans eru hannaðir með það í huga, að vinna að því að samfélagið fái vel menntað og heilbrigða einstaklinga til starfa. Áfangar á borð við fjármálalæsi, upplýsingatækni, kynningu á lögfræði, félagsfræði og bókfærslu eru skólabókardæmi um hugmyndafræðina á bak við grunnþættina. Í þessum áföngum er unnið að samfélagslegum markmiðum, þ.e.a.s. markmiðum sem stuðla að því að breyta samfélaginu til betri vegar og um leið mennta sérhvern nemanda á þann hátt, að hann verði hæfur einstaklingur. Hæfur til að takast á við viðfangsefni á borð við sjálfbærni, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti. Með því að bjóða nemanda upp á, t.d. áfanga á borð við upplýsingatækni, verður nemandinn ekki aðeins læs á hið hefðbundna prentmál, heldur líka á hina stafrænu samskiptatækni, sem er víða ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks.

Grunnþátturinn sköpun, er áberandi í mörgum áföngum Nýju Akademíunnar. Skorað er á nemendur að glíma við viðfangsefni/verkefni sín á óhefðbundin hátt. Mörg verkefni áfanganna snúast um að virkja ímyndunarafl nemenda, finna nýjar lausnir á viðfangsefnum og leita að nýjum kostum.

Stafrænt læsi og miðlalæsi er í fyrirrúmi í því netumhverfi sem skólinn býr í. Lykilhæfnin hér, felur m.a. í sér að nemandi verður læs á upplýsingar frá ólíkum miðlum og getur þar með nýtt sér þekkingu sína, sér og öðrum til framdráttar.

Nýja Akademían fagnar öllum nemendum. Komið er til móts við lykilhæfnina mannréttindi og grunnþáttinn jafnrétti, með því m.a. að kenna í netheimum einstaklingum á öllum aldri, úr öllum áttum. Nám í netheimum dregur m.a. úr fordómum gagnvart fötlun, aldri, kyni, kynhneigð, litarhætti, menningu, trú, stétt og þjóðerni. Allir hafa sömu möguleika. Jafnrétti er í hávegum haft.

Vinna við innleiðingu lykilhæfniþátta og grunnþátta menntunar er í fullum undirbúningi í skólanum.


Last modified: Thursday, 6 October 2016, 2:58 PM