Kennsluhættir og fyrirkomulag

Kennslufræðilegt leiðarljós skólans 

Kennslufræðilegt leiðarljós skólans verður sveigjanleiki, nýting upplýsingatækninnar, sjálfsnám og einstaklingsmiðað nám. Inntak kennslunnar skiptist í tvo meginþætti, annars vegar inntak aðalnámskrár framhaldsskóla og hins vegar kennslufræðistefna Nýju Akademíunnar, sem setur ábyrgð nemenda á eigin námi í forgrunn. Kennslustefnan treystir á frumkvæði nemenda með eitt öflugasta kennslutæki nútímans, tölvuna að vopni. Kennsluhættir verða í forgrunni, sem stuðla að færni nemenda til að nýta sér upplýsingatækni til útfærslu á verkefnavinnu og skilum verkefna.

Skólastarf Nýju Akademíunnar miðar að því að nemendur öðlist leikni og færni í að takast á við viðfangsefni daglegs lífs. Hefðbundinn ytri rammi s.s., skólabygging og stundaskrá, frímínútur og hefðbundnar 40 til 80 mínútna kennslustundir eru ekki til staðar og hver vinnulota hefur ekki tímamörk í sjálfu sér. Samfella í vinnudegi nemenda er breytt. Þessir óhefðbundnu kennsluhættir og þessi nálgun á skólastarfi eru megin einkenni Nýju Akademíunnar.

Nemendur þurfa að vera færir um að taka þátt í þessari sýn og hugsjón Nýju Akademíunnar, þ.e. þessari hugsjón að tölvutæknin, hið stafræna læsi, miðlamenntun, eykur kosti nemenda til samskipta og efnissköpunar af ýmsu tagi. Geta til aðgerða felur í sér þjálfun í sjálfbærnimenntun, þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum og vilja nemenda til að taka þátt í breyttum samfélagsháttum. Hjá Nýju Akademíunni fá nemendur jafnframt tækifæri til jafnréttismenntunar. Kennsla í netheimum mun leiða til að aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni og þjóðerni, skapi jafnréttismenntun hjá Nýju Akademíunni.  


Hlutverk kennara Nýju Akademíunnar

Hlutverk kennara Nýju Akademíunnar mun verða að hanna námið fyrir nemendurna og leiðbeina þeim í gegnum það. Öflugasta námsgagnið er tölvan, en kaup á kennslubókum eru engu að síður nauðsyn. Önnur námsgögn skapa kennarar eftir því sem þörf krefur. Kennarinn er í hlutverki leiðbeinandans sem felst í því, að vísa veginn í átt til frekari skilnings og tryggja bestu aðstæður til þess að frekara nám eigi sér stað. Fjölbreytni í vinnubrögðum og kennsluaðferðum er ein forsenda þess að nemendur öðlist margþætta hæfni. Framkvæmd námsins hjá Nýju Akademíunni og nálgunin verður þess vegna lýðræðisleg, sem felur í sér að ekki er unnt að setja fram afdráttarlaus markmið í einu og öllu. Þjálfun felst í því, að nemandinn lærir eitthvert tiltekið efni og tileinkar sér hæfni á því sviði. Árangurinn kemur fram í því, að nemandinn verður hæfur á því sviðið sem um ræðir. Þannig öðlast nemandinn yfirsýn og getu til að hagnýta þekkingu sína og leikni í samræmi við aðstæður hverju sinni.


Kennsluhættir

Kennslukerfið er hugsað sem skóli í netheimum, þar sem hver áfangi á sér samastað. Nemendur komast þar í tengsl við kennara áfangans og samnemendur sína. Þar verða vistuð ýmis námsgögn s.s. námsáætlun, námsefni, verkefni o.fl.

Áfangakerfið verður í aðalhlutverki í kennslunni. Námið er þekkt sem dreifnám, er gefur nemendum kost á að ljúka áfanga á rúmlega 18 vikum eða á skemmri tíma, án þess að sitja kennslustundir. Ekki verður um hefðbundnar annir að ræða heldur lotur. Hver lota getur varað í allt að 18 vikur þ.e.a.s. að hver áfangi verður opinn nemendum í 18 vikur og mikilvægt verður, að nemendur vinni efnið jafnt og þétt í samræmi við námsáætlun og virði skilafrest verkefna. Nemendur geta þó unnið verkefnin á sínum hraða, en krafan verður, að vera búin að öllu innan 18 vikna.

Nemendur vinna sjálfstæð verkefni, sem telja til eininga, en jafnframt munu nemendur mæta í próf.  Nemendur skipuleggja sjálfir áfangaval sitt, að því marki sem framboð og undanfarareglur leyfa. Einnig geta nemendur haft áhrif á framboð valáfanga og komið með hugmyndir að nýjum áföngum. Nám Nýju Akademíunnar á að kalla fram eðlislæga forvitni ungmenna, áhugahvöt þeirra, trú á eigin getu og hæfileika til að beita hæfni sinni í margvíslegum viðfangsefnum á uppbyggilegan hátt. Nám nemandans verður í brennidepli og speglar hin kennslufræðilega stefna Nýju Akademíunnar ábyrgð nemenda.

Kennsluhættir Nýju Akademíunnar verða m.a.:

  • fjarnám,
  • einstaklingsmiðað nám,
  • sjálfsnám,
  • lausnarleitarnám,
  • samvinnunám,
  • leitarnám,
  • heimildavinna,
  • umræðu- og spurnaraðferðir.


Last modified: Thursday, 6 October 2016, 3:11 PM