Réttindi og skyldur

Í aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 er lögð áhersla á skuldbindingu framhaldsskóla á þjónustu við nemendur. Nýja Akademían mun leitast við að taka mið af mismunandi þörfum nemenda og veita þeim aðgang að öllum upplýsingum og gögnum sem þörf er á, umsjónar-, og námsaðstöðu og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir. Verklagsreglur um réttindi og skyldur skólans og nemenda, sem skráðar eru í skólanámskrá, verða jafnframt aðgengilegar nemendum, forráðamönnum og öðrum þeim sem málið varðar, á heimasíðu skólans.


Velferð nemenda

Skýrt er tekið fram í lögum, að skólum ber að veita nemendum þjónustu svo nám þeirri geti orðið sem árangursríkast. Sérstaða Nýju Akademíunnar verður dreifnám. Nýja Akademían er skóli í netheimum og því frábrugðinn hefðbundnum skólum, að því leyti að nemendur eru ekki lengur háðir hefðbundinni stundartöflu. Aðkoma skólans að velferð nemenda er engu að síður fólgin í því, að leggja áherslu á líkamlega, andlega og félagslega heilsu nemenda. Skólinn er staðsettur í Þverholti 2, sem er kjarni Mosfellsbæjar. Þessi stóra bygging hýsir fjölda fyrirtækja, þar á meðal veitingastaði, bókasafn, netkaffi, heilsugæslu, apótek og matvöruverslanir. Þeir nemendur sem heimsækja skólann hafa við höndina alla þessa þjónustu.

Skólinn rekur ekki sérstakt mötuneyti. Hins vegar geta nemendur keypt léttar veitingar og drykki úr sjálfsala. Í húsi skólans, á jarðhæð í Þverholti 2, er rekið mötuneyti, sem selur heilnæman mat og þangað sækir starfsfólk skólans.  Matseðill er gefinn út vikulega. Þar er hægt að fá afgreiddan heitan mat, súpur og annað góðgæti á sambærilegu verði og mötuneyti annarra skóla bjóða upp á. 

Í húsi Nýju Akademíunnar er heilsugæslustöð Mosfellsbæjar, sem þjónar íbúum bæjarins. Skólinn getur leitað þangað ef þess þarf. Samkomulag er á milli Nýju Akademíunnar og heilsugæslu Mosfellsbæjar (skv. samkomulagi við Hrafnhildi Halldórsdóttur, yfirhjúkrunarfræðing Mosfellsbæjar), um að heilsugæslan annist heilsuvernd nemenda og kennara skólans sem þangað sækja. Heilsugæslan mun jafnframt annast bólusetningar fyrir skólann.


Last modified: Wednesday, 5 October 2016, 5:05 PM