Innritun í Nýju Akademíuna

Innritun

Skilyrði fyrir inntöku í námsáfanga Nýju Akademíunnar verður að öllu jöfnu, að nemandinn hafi lokið námi í grunnskóla. Sýna þarf fram á, að unnið hafi verið með og prófað úr öllum námsmarkmiðum viðkomandi námsgreina skv. aðalnámskrá grunnskóla. Einkunnarmörk í íslensku, stærðfræði og ensku eru að jafnaði skólaeinkunnin 5 inn á námsbrautir Nýju Akademíunnar.

Umsókn um nám hjá Nýju Akademíunni fer fram með rafrænum hætti og eyðublöð vegna umsóknar má finna á heimsíðu skólans. Nemendur þurfa nettengda tölvu og boðið verður upp á aðstoð við innritun sé þess óskað.

Nemendur eru valdir á grundvelli inntökuskilyrða.

Einnig koma eftirtalin atriði til álita:

  • vitnisburður grunnskóla (eða annars framhaldsskóla) um ástundun,
  • einkunnir í öðrum námsgreinum en þeim sem lágmarkseinkunnir taka til,
  • sérstakar einstaklingsbundnar aðstæður.

Reglur varðandi þá sem ekki uppfylla skilyrði til innritunar

Nýja Akademían mun bjóða upp á nám fyrir þá sem ekki uppfylla ofangreind skilyrði eða einkunnarkröfu.  Sú leið verður nefnd undirstöðubraut (U-braut). Slakað verður á kröfum um skólaeinkunn í kjarnafögum inn á U-braut. Nemandinn sendir þá inn ákveðin gögn s.s. skýringar með einkunnum, umsagnir kennara eða greiningargögn, t.d. frá náms- eða starfsráðgjöfum.  

Unnt er að sækja um raunfærnimat þ.e.a.s. að meta reynslu, sem fengin er eftir 18 ára aldur og fá hana metna til eininga í t.d. lífsleikni, íþróttum eða dansi. Umsækjandinn skal þá leggja fram nauðsynleg gögn sem styðja umsóknina s.s. námssamning, vottorð vinnuveitanda, yfirlit um nám eða námskeið og aðrar upplýsingar, sem geta nýst við mat á umsókn.

Mat skólameistara ræður því hvort nemandi, sem ekki uppfyllir skilyrði til innritunar, fær að hefja nám á viðkomandi námsbraut, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1150/2008 um innritun nemenda í framhaldsskóla.

Allir foreldrar/forráðamenn sem þess óska, geta fengið viðtal hjá skólameistara/kennslustjóra varðandi inntökuskilyrðin.

Ef nemandi innritast í Nýju Akademíuna úr öðrum skóla, sem starfar jafnframt samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, halda áfangar þess skóla gildi sínu og einingafjölda, svo framarlega sem námlokin sýni fullnægjandi árangur og að áfangarnir séu skilgreindur hluti af þeirri braut sem nemandinn innritast á. Áfangar og nám sem fellur utan brautarinnar, getur verið metið að því marki sem valgreinakvóti brautarinnar leyfir. Nám sem metið er frá öðrum skóla er auðkennt með stjörnu (*) á útskriftarskírteinum skólans. Matsnefnd (skólameistari og aðstoðarskólameistari) fer yfir þessar umsóknir.

Nemendur Nýju Akademíunnar geta ráðið mestu um námshraða sinn og lagað hann að hæfileikum sínum og aðstæðum. Einnig er þeim frjálst að auka einingafjölda sinn að vild, með því að sækja valáfanga utan brautar. Með góðu skipulagi geta duglegir nemendur stytt námstíma sinn umtalsvert og á það við um hverja braut sem í boði er. Meginreglan er þó sú, að nemendur séu ekki með fleiri en 12 fimm eininga (fein) áfanga á ári. Sérstaða Nýju Akademíunnar, þ.e. nám í netheimum með lotukerfi að leiðarljósi gerir það að verkum, að nemendur stunda nám í áföngum án hefðbundinnar skólasóknar (dreifnám), sem kann að gera nemendum kleift að stunda nám sitt með meiri hraða en almennt stendur þeim til boða.

Last modified: Saturday, 6 January 2018, 3:40 PM