Meðferð gagna og skráning upplýsinga

Námsferlar og aðgengi að upplýsingum

Námsferill/námsárangur nemenda er skráður í miðlægt tölvukerfi skólans og getur nemandi ætíð fengið útprentað yfirlit um stöðu sína í námi. Útprentað afrit er geymt í skjalasafni skólans. Gætt verður fyllsta öryggis og öll gögn meðhöndluð sem trúnaðarmál. Við gerð heimasíðu Nýju Akademíunnar, þar sem öll samskipti við nemendur munu fara fram, verður þess gætt að allar reglur Persónuverndar verði uppfylltar, sbr. 8. gr. laga um persónuvernd og 11. g. laga um öryggi persónuupplýsinga nr. 299/2001 og nr. 712/2008. 

 

Nýja Akademían varðveitir eftirfarandi almennar upplýsingar um nemendur:

 • fjöldi nemenda,
 • aldur þeirra,
 • kyn,
 • búsetu,
 • ríkisfang,
 • móðurmál,
 • dreifingu nemenda á námsbrautir og skóla.

 

Nýja Akademían varðveitir eftirfarandi almennar upplýsingar um námsferil og árangur nemenda:

 • námsframvindu nemanda,
 • brottfall,
 • námsmat, þ.m.t. niðurstöður viðmiðunarprófa,
 • brautskráningu,
 • gögn sem nauðsynleg eru til að meta umsókn nemanda,
 • framvindu náms hjá nemenda, þ.m.t. áfangar, einkunnir, viðvera, nám metið annars staðar frá, úrsagnir og upplýsingar um námsbrautir viðkomandi,
 • almennar persónulegar upplýsingar s.s. nafn, kennitölu, heimilisfang og símanúmer, forráðamenn o.s.frv.

 

Nýja Akademían varðveitir eftirfarandi almennar upplýsingar um starfsfólk:

 • fjölda, aldur, kyn, starfsheiti, menntun, stöðuhlutfall og starfsaldur.

 

Nýja Akademían varðveitir eftirfarandi almennar upplýsingar um innra starf skólans, aðstöðu og fjármál:

 • námsgreinar,
 • kennslumagn,
 • námsbrautir,
 • starfstíma,
 • skólanámskrá,
 • gæðakerfi og matsgögn,
 • húsnæðis- og tækjakost,
 • kennslukostnað,
 • rekstrarkostnað,
 • sértekjur.

 

Námsferilsupplýsingar taka til nemenda sem hafa verið skráðir í nemendakerfi Nýju Akademíunnar frá umsókn og þar til þeir hætta námi með útskrift, brottfalli eða flutningi í annan skóla.

Óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um lögráða nemendur án samþykkis þeirra eða forsjárforeldra/forráðamanna, þegar um er að ræða nemendur yngri en 18 ára. Nýja Akademían opnar forsjárforeldrum og forráðamönnum barna yngri en 18 ára aðgang að upplýsingakerfi sínu, þar sem meðal annars eru birtar einkunnir nemenda. Um rétt forsjárlauss foreldris til aðgangs að upplýsingum um barn sitt upp að 18 ára aldri, fer samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003. Þegar nemendur hafa náð lögræðisaldri, er einungis heimilt að veita þeim sjálfum, eða þeim sem nemendur veita skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða þá persónulega.

Nýju Akademíunni er heimilt að veita öðrum skólum upplýsingar um einstaka nemendur vegna flutnings þeirra milli skóla eða vegna þess að þeir stunda nám við fleiri en einn skóla eða fræðslustofnun. Persónuupplýsingar skulu afhentar á öruggan hátt þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt.

Á skrifstofu skólans verða veittar allar almennar upplýsingar um starfsemi skólans. Skólavottorð, staðfesting um skólavist og staðfesting á námslokum verða gefin út af skrifstofu skólans. Þar verður einnig tekið við tilkynningum um veikindi og leyfisbeiðnir. Skólaskrifstofan mun gefa út ýmis skjöl og vottorð. Unnt verður að gefa út námsferilskrá (einkunnarblað) á ensku fyrir nemendur, sem þess óska gegn hóflegu gjaldi.

Farið verður með allar upplýsingar samkvæmt reglugerð um upplýsingaskyldu framhaldsskóla um skólahald, aðrar kerfisbundnar skráningar og meðferð persónuupplýsinga um nemendur, sem sett var samkvæmt 55. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008.


Last modified: Wednesday, 5 October 2016, 5:46 PM