Skólareglur Nýju Akademíunnar

Reykingar og vímuefni

Reykingar og önnur tóbaksnotkun er stranglega bönnuð í húsnæði og á lóð Nýju Akademíunnar. Einnig er öll meðferð og neysla áfengis og annarra vímuefna stranglega bönnuð í húsakynnum skólans og á samkomum á vegum skólans. Haft verður samband við forsjárforeldra/forráðamenn ólögráðra nemenda komi eitthvað upp á í þessum efnum.


Skólareglur 

Mikilvægt er að nemendum, foreldrum og starfsmönnum Nýju Akademíunnar sé ljóst hvaða kröfur skólinn gerir og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar.


Skólasóknarreglur

Sérstaða Nýju Akademíunnar, þ.e. nám í netheimum með lotukerfi að leiðarljósi, gerir það að verkum að nemendur stunda nám í áföngum án hefðbundinnar skólasóknar (dreifnám). Nemendur verða óháðir hefðbundinni stundartöflu og geta stundað nám sitt frá þeim stað sem þeir kjósa sér. Þeir þurfa hins vegar að mæta í próf, sem tekin eru undir eftirliti og þá gerir skólinn kröfur um mætingu. Nemendum ber sjálfum að fylgjast með skólasókn sinni (þ.e. mætingu í lotur og próf). Þeir sem ekki geta tekið próf sín í húsnæði skólans, þurfa að tilkynna það með því að senda tölvupóst á nak@nak.is. Sjúkrapróf verða í boði fyrir þá sem forfallast. Tilkynna þarf forföll í síðasta lagi daginn sem prófið hafði verið ákveðið. Alltaf þarf að skila inn vottorði vegna forfalla af völdum veikinda. Forráðamenn ólögráðra nemenda þurfa að tilkynna veikindi barna sinna, helst í gegnum tölvupóst nak@nak.is eða í síma 555 7799, ef ekki er unnt að senda tölvupóst.

Ef nemandi brýtur ítrekað á reglum um mætingar í próf, er heimilt að vísa nemanda úr áfanga. Skal nemanda tilkynnt um slíkt bæði munnlega og skriflega. Nemandi þarf hins vegar að greiða sérstakt gjald fyrir upptökupróf.

Skólameistari hefur yfirumsjón með skólasókn/prófmætingum nemenda. Endanlegar ákvarðanir um brot nemenda varðandi mætingar í lotur eða próf er á ábyrgð skólameistara. Allar upplýsingar um tímasetningar nemenda í lotur og próf er að finna í nemenda-bókhaldskerfi skólans, sem finna má á heimasíðu hans.


Prófin og prófreglurnar

Nemendur eiga að mæta tímanlega í próf svo próftíminn nýtist. Nemandi sem kemur of seint fær ekki framlengingu á próftíma. Skólinn leggur nemendum til pappír, en nemendur skulu gæta þess að hafa með sér skriffæri. Bannað er að hafa neitt meðferðis í próf annað en skriffæri og leyfileg hjálpargögn, þ.e. reiknivélar, orðabækur og þess háttar eftir reglum hverrar námsgreinar. Nemendur mega ekki hafa síma, tónspilara eða nein önnur tæki í vösum. Pennaveski á að geyma á gólfi við prófborð. Allar bækur, skólatöskur, yfirhafnir og annað slíkt skal skilja eftir utan prófstofu. Nauðsynlegt er að tryggja frið og þögn í prófstofunni meðan á prófi stendur. Óheimilt er að yfirgefa prófstað fyrr en 30 mínútur eru liðnar af próftíma. Brýnt er að fara hljóðlega. Nemandi sem staðinn er að því að nota óleyfileg gögn, veita eða þiggja hjálp við próf umfram það sem heimilað er, svindla á prófi, hefur fyrirgert rétti sínum til frekari þátttöku í prófinu. Ekki verður gefin einkunn fyrir áfangann.

Nemandi sem kemur ekki til prófs og hefur ekki fengið heimild til að hætta námi í viðkomandi áfanga, telst hafa gert tilraun til að þreyta prófið.

Verði nemendur veikir á próftíma, þarf að tilkynna það að morgni prófdags í síma 555 7799 eða með tölvupósti á nak@nak.is. Skila þarf læknisvottorði á skrifstofu skólans, til að öðlast rétt á að taka sjúkrapróf. Þau eru haldin 3 dögum eftir að reglulegum prófum lýkur og einstaka próf þarf e.t.v. að halda síðar. Nemendur sem tilkynna veikindi á prófdegi og skila vottorði, eru sjálfkrafa skráðir í sjúkrapróf. Ekkert gjald er tekið fyrir sjúkrapróf, sé það tilkynnt samkvæmt reglum skólans. Standist nemandi hins vegar ekki próf og óskar eftir endurtöku, fellur kostnaður á nemandann. Gjald fyrir upptökupróf þarf að greiða áður en gengið er til prófs inn á reikning skólans, sjá upplýsingar á heimasíðu skólans. Veikist nemandi í prófi ber honum að vekja athygli kennara í yfirsetu, sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn nemandans. Skal læknisvottorði dagsettu sama dag skilað til skólameistara.

Nemendur sem taka upptökupróf þurfa að skrá sig í þau og er unnt að gera það á heimasíðu skólans eða á skrifstofu hans. Ekki er þörf á að skrá sig fyrr en einkunnir hafa birst. Ef eitthvað er óljóst með námsframvinduna eru nemendur hvattir til að hafa samband við skrifstofu skólans.

Ákveðnar reglur gilda um lengri próftíma, sbr. texti hér að neðan.

Rétt er að geta þess að unnt verður að heimila nemendum að taka próf utan prófstofu skólans. Það skal gert í samráði við skólameistara og á helst við þegar nemandi býr erlendis eða á landsbyggðinni.

Einkunnir verða birtar undir áfanganum á Moodle. Nemendur eiga kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara. Auglýstur prófsýningardagur er á heimasíðu skólans.

Nemendur og forráðamenn þeirra eru hvattir til að hafa samband við skólameistara ef eitthvað er óljóst varðandi próf og námsframvindu.


Lengri próftími

Nemendur geta sótt um að fá lengingu á próftíma í lokaprófum sem nemur auka 15 mínútum á hverja klukkustund í prófi. Sækja þarf um lengingu próftíma til skólameistara.

 

Nemendur geta þurft lengri próftíma af eftirfarandi ástæðum:

  • hafa greinst með sértæka námsörðugleika s.s. deslexíu,
  • hafa búið lengi erlendis,
  • eru af erlendu bergi brotnir,
  • eru haldnir miklum prófkvíða,
  • eiga við langvarandi veikindi að stríða eða tilfallandi,
  • hafa aðrar greiningar sem eru hamlandi í námi þeirra.

 

Umsókn um lengingu próftíma þarf að tilkynna strax í upphafi náms. Sótt er um lengingu próftíma undir flýtileiðir/skrá sérúrræði á heimasíðu skólans.

Sértækir námsörðugleikar, aðrar greiningar:

  • nemendur þurfa að skila greiningu til skólameistara.

Prófkvíði:

  • nemendur þurfa að skila vottorði frá sálfræðingi/geðlækni um prófkvíða.

Veikindi:

  • nemendur geta sótt um lengri próftíma vegna langvarandi veikinda eða tímabundinna veikinda/erfiðleika og skila læknisvottorði.


Meðferð ágreiningsmála

Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Ef ágreiningur rís upp milli nemanda og kennara um einkunn nemenda og nemandi unir ekki mati kennarans, skal vísa málinu til skólameistara.

Skólameistari skráir feril máls þegar ágreiningsmál koma upp innan skólans eða þegar um brot á skólareglum er að ræða. Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti, en jafnframt leggja áherslu á öryggi og vandvirkni við úrlausn og afgreiðslu. Uni málsaðilar ekki niðurstöðu skólameistara, má vísa málinu til mennta- og menningarmálaráðuneytisins.Last modified: Wednesday, 5 October 2016, 6:08 PM