Mat á námi

Verklagsreglur um nám og mat á námi

Í hugtakinu námsmat felst lýsing á aðferðum við námsmat, einkunnagjöf eða vitnisburður og birting niðurstaðna.

 

Nýja Akademían mun m.a. starfa samkvæmt eftirtöldum verklagsreglum:

 • allir áfangar Nýju Akademíunnar verða skilgreindir samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla,
 • nemendur þreyta skrifleg próf í þeim námsgreinum sem við eiga og markvisst mat lagt á þá þætti sem taka til aðalnámskrár framhaldsskóla,
 • þegar flutningur á sér stað milli skóla, skulu áfangar metnir á sama hæfniþrepi og þeir eru skilgreindir í.
 • áfanga sem falla utan námsbrauta má meta sem valgreinar,
 • nemandi sem hefur starfað á vinnumarkaði í a.m.k. þrjú ár og náð 23 ára aldri að lágmarki, getur sótt um raunfærnimat,
 • allt mat á námi sem stundað hefur verið erlendis verður metið af skólameistara,
 • námsmat getur farið fram með mismunandi hætti eftir ákvörðun kennara. Það getur verið byggt á einu prófi í lok námsáfanga og/eða samfelldu mati á vinnu nemandans meðan á námi hans stendur. Ennfremur á lausn sérstakra verkefna. Nánari tilhögun námsmats er í höndum kennara einstakra faggreina,
 • þegar nám hefst skal nemendum kynnt kennsluáætlun og námsmarkmið svo og tilhögun námsmats hvers áfanga,
 • nemendum er bent á að í sumum áföngum verða þeir að standast lokapróf áður en                verkefnaeinkunn er innreiknuð,
 • kennarar dæma úrlausnir nemenda. Við námslok skulu nemendur eiga þess kost að skoða úrlausnir sínar innan 5 virkra daga frá afhendingu einkunna. Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt,
 • komi upp ágreiningur milli nemenda og kennara um mat úrlausnar, skal skólameistari kveðja til prófdómara til þess að fara yfir úrlausnina. Úrskurður prófdómara skal gilda,
 • tónlistarnám eða umfangsmikil íþróttaþjálfun á vegum sérsambanda eða íþróttafélaga undir stjórn sérmenntaðra þjálfara, íþróttafræðinga eða kennara samhliða náminu, verður metið af skólameistara. Öllum gildandi lögum í því samhengi verður framfylgt,
 • Nýja Akademían starfar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Þá á nemandi sem sækir nám í skólanum rétt á því að fá nám sem hann hefur lokið, metið til eininga í viðtökuskóla, enda falli námið að námskrá og námsbrautarlýsingum viðkomandi skóla.


Námsmatsaðferðir


Almennt námsmat verður í höndum kennara og skólameistara. Matið mun byggja á markmiðum skólans og þeim reglum fylgt sem kveðið er á um í aðalnámskrá framhaldsskóla og skólanámskrá Nýju Akademíunnar. 

Leitast verður við að mynda sterka tengingu milli námsmats og kennsluhátta og gera námsmat eins samofið náminu og kostur er.


Tilgangur námsmats er þríþættur:

 • í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi Nýju Akademíunnar sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá framhaldsskóla,
 • í öðru lagi að kanna að hve miklu leyti nemandinn hefur tileinkað sér þau viðmið um þekkingu, leikni og hæfni, sem sett eru í einstökum námsáföngum,
 • í síðasta lagi að matið gagnist nemandanum við að meta stöðu sína og gengi í námi.

 

Umfang matsins verður að jafnaði í samræmi við umfang náms í viðkomandi áfanga. Þannig getur námsmatið orðið mikilvægt tæki til að hafa áhrif á nemendur svo að námsárangur þeirra aukist. Námsmatið mun gefa nemendum kost á að fylgjast með eigin árangri í námi. Slíkt getur í mörgum tilvikum leitt til aukins áhuga og betri námsárangurs.

Námsmatið mun taka til hæfniviðmiða náms, hvort sem litið er til þekkingar eða leikni. Við ákvörðun hæfnimarkmiða verður m.a. horft til þeirra grunnþátta og þeirrar lykilhæfni, sem aðalnámskrá framhaldsskólanna kveður á um. Koma þessi atriði jafnt fram í einstökum áföngum sem og í náminu í heild. Námsmatið mun byggja á margvíslegum námsmatsaðferðum og fela í sér vissu um hæfni nemandans. Þess verður gætt, að námsmatið taki til allra þátta námsins, þannig að þekking nemandans, leikni og hæfni auk framfara, verði metin.

Fjölbreyttum aðferðum verður beitt við námsmat.

 

Hjá Nýju Akademíunni mun námsmat m.a. byggja á eftirtöldum aðferðum:

 • verkefnum sem nemandinn vinnur á vefnum,
 • þátttöku í kennslustundum á vefnum,
 • þátttöku í umræðum á vefnum,
 • skriflegum og verklegum prófum sem reyna á þekkingu, leikni og hæfni,
 • færslu ferilbókar sem heldur utan um verkefni nemenda.

 

Ferilbók ásamt, gangvirkum hlutaprófum og lokaprófi verður grundvöllur námsmats. Lokamat mun síðan verða byggt á árangri nemenda í verkefnum, sem skilað verður sem og prófum.


Last modified: Wednesday, 5 October 2016, 6:21 PM