Námsframvinda og einkunnargjöf
Sérstaða Nýju Akademíunnar er m.a. sú, að nemendur skólans verða allir dreifnámsnemendur. Um nemendur í dreifnámi gilda sömu reglur og aðra nemendur hefðbundinna framhaldsskóla, nema að nemandinn er undanskilinn tímasókn. Nemandi í dreifnámi ber ábyrgð á að kynna sér námsáætlun og hafa samband við kennara í samræmi við hana.
Kennsla Nýju Akademíunnar fer fram í netheimum og er kennt samkvæmt lotukerfi. Aðgangur að áfanga lokast að 18 vikum liðnum, frá því að nemandinn skráði sig í áfangann. Nemandinn fær tækifæri til að þreyta lokapróf á þessu 18 vikna tímabili. Tímasetningar prófa, veikindaprófa og upptökuprófa verða breytilegar og vel kynntar á heimasíðu skólans hverju sinni. Ef nemendur stefna að því að ljúka stúdentsprófi, geta þeir þurft að gera ráð fyrir því að taka hluta námsins í öðrum skólum, þar sem ekki er ennþá unnt að bjóða upp á alla áfanga sem stúdentspróf krefst. Lotur geta hafist og lokast alla mánuði ársins að undanskildum seinni hluta desember- og fyrri hluta janúarmánaðar.
Eftirfarandi reglur gilda almennt um námsframvindu:
- til að standast námsmat í áfanga og fá leyfi til
að hefja nám í áfanga þrepi ofar, þarf lágmarkseinkunnina 4,5 (námundað í 5) og
nemandi skal ljúka 15 framhaldsskólaeiningum (þ.e.a.s. fein, sjá skilgreiningu
á fein í kafla 3.2) hið minnsta á 6 mánaða tímabili, nema um annað sé samið við
skólameistara,
- nemanda er þó heimilt að ljúka áfanga með
einkunnina 4, en þá telst áfanginn ekki með til eininga. Einkunnin 4 má í hæsta
lagi vera í tveimur áföngum samtals í kjarna/grunni og í valáföngum,
- einkunnir geta byggst á frammistöðu á skilum og
mati á verkefnum og lokaprófi. Kennarar og skólastjórnendur ákveða það í
sameiningu.
Í flestum áföngum Nýju Akademíunnar verða lokapróf og verða nemendur að ná tilskilinni lágmarkseinkunn á lokaprófi áður en tekið er tillit til úrlausna á skilum og verkefnum. Lágmarkseinkunn í hverjum áfanga er sem fyrr segir 4,5. Nemendum sem ljúka prófi verður úthlutað prófskírteini, þar sem fram kemur hæfniþrep námsloka, upptalning á áföngum sem nemandi hefur tekið og umsögn um almenna þekkingu, leikni og hæfni nemandans.
Nemanda verður heimilt að skrá sig þrívegis í sama áfanga. Nemanda verður þó heimilt að undangengnu samráði við skólameistara að sækja um setu í áfanga í fjórða sinn.
Nemandi telst ekki hafa staðist áfanga ef eitthvert eftirtalinna atriða á við:
- nemandinn nær ekki lágmarkseinkunn,
- nemandinn uppfyllir ekki sérreglur áfangans s.s.
reglur um verkefnaskil,
- nemandinn hættir í áfanganum eða mætir ekki í
lokapróf,
- nemandi er staðinn að svindli.
Nemandi telst ekki hafa staðist námsbraut ef eitthvert af eftirtöldu á við:
- nemandinn nær ekki lágmarksfjölda eininga og
hefur ekki sótt um undanþágu,
- nemandinn hættir í skólanum,
- nemanda er vísað úr skólanum,
- nemandi er staðinn að svindli.
Óheimilt er að láta aðra vinna ritgerðir og verkefni fyrir sig. Ef nemandi notar texta, myndir eða annað efni frá öðrum í verk sín og gerir ekki grein fyrir uppruna efnisins og skilja má að efnið sé höfundarverk nemenda, verður litið á slíkt sem ritstuld. Slíkt jafngildir prófsvindli. Kennarar setja reglur um skil á verkefnum. Þær koma fram á námsáætlun og eru kynntar í byrjun áfangans.
Einkunnir verða gefnar í heilum, eða heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Aðaleinkunn verður vegið meðaltal allra einkunna til lokaprófs og reiknast hún með tveimur aukastöfum.
- Ágætiseinkunn er 9,00
– 10,00
- Fyrsta einkunn er 7,25
– 8,99
- Önnur einkunn er 6,00
– 7,24
- Þriðja einkunn er 5,00
– 5,99
- Falleinkunn <
5,00
Umsagnir um nemendur verða skilgreindar sem hér segir:
Framúrskarandi: Afburðanemandi eða leiðandi nemandi á sínu sviði.
Mjög gott: Afar sterkur nemandi.
Gott: Sterkur nemandi, en ákveðin atriði gætu orðið betri.
Ásættanlegt: Nemandi stóðst próf með lágmarks árangri.
Ófullnægjandi: Slakur nemandi. Falleinkunn.
Í áföngum þar sem ekki verða formleg próf heldur leiðsagnarmat, mun skólinn gera strangar kröfur til námsmatsaðferða.
Einkunnir munu birtast nemendum í Moodle undir Einkunnir. Á skrifstofu Nýju Akademíunnar munu nemendur geta fengið útprentuð stöðluð yfirlit þar sem einkunnir koma fram. Nemandi þarf að ná lágmarkseinkunn á lokaprófi, áður en vinnueinkunn er reiknuð inn í lokaeinkunn hans.
Þetta leiðir af sér:
- að vinnueinkunn getur hækkað lokaeinkunn hafi
nemandi náð 4,5 á lokaprófi,
- að vinnueinkunn getur hækkað lokaeinkunn upp að
4,0 hafi nemandi ekki náð 4,5 á lokaprófi,
- að ófullnægjandi vinnueinkunn getur orðið til
þess að nemandi standist ekki áfanga, jafnvel þó prófseinkunn hans hafi verið
hærri en 5,0.