Reglur um próf

Reglur um lokapróf

Skilyrt verður að sýna skilríki áður en próf hefjast. Nýja Akademían vinnur með lotukerfi og lokapróf verða haldin u.þ.b. tvisvar sinnum í mánuði. Kennt verður að jafnaði allan ársins hring. Lokapróf fara fram í húsnæði Nýju Akademíunnar. Prófamiðstöð Nýju Akademíunnar er í Þverholti 2, 5. hæð. Þeir sem ekki geta tekið próf sín í húsnæði skólans, þurfa að tilkynna það með því að senda tölvupóst á nak@nak.is. Í ákveðnum tilvikum verður unnt að þreyta lokapróf í heimabyggð nemenda, hvar sem er í heimi. Þessi próf verða þá tekin hjá skólastofnunum eða á öðrum viðurkenndum stað í nágrenni við bústað nemanda. Frekari upplýsingar verður unnt að fá með því að senda tölvupóst á nak@nak.is. Sjúkrapróf verða í boði fyrir þá sem forfallast. Tilkynna þarf forföll í síðasta lagi daginn sem prófið hafði verið ákveðið.


Reglur um upptökupróf

Nemandi sem hefur aðaleinkunn 5,0 eða hærri þegar námi lýkur, en hefur hlotið lokaeinkunn undir 5 í einhverjum áföngum, hefur heimild til að þreyta upptökupróf í þeim áföngum. Kostaður við upptökupróf fellur á nemanda. Nemandi telst hafa staðist upptökupróf í áfanga ef lokaeinkunn hans er að lágmarki 4,5.  Ekki eru allir áfangar þess eðlis að unnt sé að taka upptökupróf í þeim. Þá verður að sækja áfangann aftur. Dæmi um slíka áfanga eru t.d. íþróttir.


Undanþágur og frávik

Öll frávik frá reglum Nýju Akademíunnar fara í gegnum skólameistara. Öllum nemendum er heimilt að sækja um undanþágur. Hvert tilfelli um sig er þá skoðað og metið. Skólameistari getur veitt undanþágu frá öllum ákvæðum ef aðstæður nemenda eru þess eðlis, t.d. vegna langvarandi veikinda, slysfara, dauðsfalls í fjölskyldunni, námsörðugleika, fötlunar, langvarandi keppnis- og/eða íþróttaferða o.fl. Leitast verður við að gefa nemendum tækifæri til að ljúka prófum eða lokaverkefnum eftir því sem við verður komið. Skólameistari veitir nánari upplýsingar um undanþágur og frávik.


Undanfarar og prófaniðurstöður

Áfangakerfið setur litlar formlegar skorður við því í hvaða röð nemendur taka námsgreinar. Hins vegar er nemendum ráðlagt að í upphafi skuli endinn skoða og endurskoða. Til dæmis er brýnt að ljúka sem fyrst við skylduáfanga brauta. Eins er mikilvægt að huga snemma að sérgreinum og vali.

Til að hefja nám í áfanga er skylt að hafa lokið ákveðnu námi. Það kallast undanfari. Um fyrstu áfangana í flestum greinum gildir að hafa lokið grunnskólaprófi, en þó eru í einstaka áföngum gerðar kröfur um undanfara úr öðrum námsgreinum og má þar nefna að nokkra stærðfræðiþekkingu þarf áður en nám t.d. í eðlisfræði er hafið. Innan hverrar greinar segir áfangaröðin oftast til um undanfara og t.d. er skylt að hafa lokið STÆR2A05 og STÆR2B05 áður en tekið er til við STÆR3A05. Í áfangalýsingum er jafnan tekið fram í lýsingu hvers áfanga, hver undanfarinn er.

Allir áfangar enda á tölu sem gefur til kynna væntanlegan einingafjölda. Í nýju kerfi (fein) telst fullt nám á einni önn 30 nýjar einingar. Fullt nám er 30 fein á hálfu ári og heildarfjöldi eininga til stúdentsprófs 200 fein. Þess ber að geta, að Nýja Akademían býður ekki upp á fullt nám til stúdentsprófs árið 2017.

Öllu námi í skólanum er skipt upp í hæfniþrep, þar sem hærri þrepin byggja á þeim lægri. Fyrstu þrjú þrepin teljast til framhaldsskólastigs, en fjórða þrepið telst á mörkum framhaldsskóla og háskóla.

Í upphafi hvers áfanga skal nemendum kynnt kennsluáætlun um tilhögun námsmats. Þar skal tilgreina öll verkefni sem vægi hafa til námsmats og nemanda er skylt að skila á 18 vikna tímabili. Kennarar meta verkefni nemenda til einkunna og verður þeirri einkunn ekki hnekkt. Próf sem vega 50% eða meira skulu haldin á sérstökum próftíma. Nemendur mæta þá í skólann og taka próf undir eftirliti prófstjóra. Heimilt verður að leggja fyrir verkefni með vægi í lokaeinkunn, sem ekki krefst sérstaks undirbúnings.

Að loknu prófi eiga nemendur þess kost að skoða eigin prófúrlausnir. Allar upplýsingar um prófdag og  prófsýningar verða kynntar á heimasíðu skólans. Komi fram skekkja í mati eða einkunnagjöf skal hún leiðrétt. Nemendur eiga rétt á því að ágreiningi um prófniðurstöðu sé vísað til úrskurðar annars en viðkomandi kennara.


Mæting í próf, veikindi og upptökupróf

Nemendur eiga að mæta tímanlega í próf svo próftíminn nýtist. Nemandi sem kemur of seint fær ekki framlengingu á próftíma. Skólinn leggur nemendum til pappír, en nemendur skulu gæta þess að hafa með sér skriffæri. Bannað er að hafa neitt meðferðis í próf annað en skriffæri og leyfileg hjálpargögn, þ.e. reiknivélar, orðabækur og þess háttar eftir reglum hverrar námsgreinar. Nemendur mega ekki hafa síma, tónspilara eða nein önnur tæki í vösum. Pennaveski á að geyma á gólfi við prófborð. Allar bækur, skólatöskur, yfirhafnir og annað slíkt skal skilja eftir utan prófstofu. Nauðsynlegt er að tryggja frið og þögn í prófstofunni meðan á prófi stendur. Óheimilt er að yfirgefa prófstað fyrr en 30 mínútur eru liðnar af próftíma. Brýnt er að fara hljóðlega. Nemandi sem staðinn er að því að nota óleyfileg gögn, veita eða þiggja hjálp við próf umfram það sem heimilað er, svindla á prófi, hefur fyrirgert rétti sínum til frekari þátttöku í prófinu. Ekki verður gefin einkunn fyrir áfangann.

Nemandi sem kemur ekki til prófs og hefur ekki fengið heimild til að hætta námi í viðkomandi áfanga, telst hafa gert tilraun til að þreyta prófið.

Verði nemendur veikir á próftíma, þarf að tilkynna það að morgni prófdags í síma 555 7799 eða með tölvupósti á nak@nak.is. Skila þarf læknisvottorði á skrifstofu skólans, til að öðlast rétt á að taka sjúkrapróf. Þau eru haldin 3 dögum eftir að reglulegum prófum lýkur og einstaka próf þarf e.t.v. að halda síðar. Nemendur sem tilkynna veikindi á prófdegi og skila vottorði, eru sjálfkrafa skráðir í sjúkrapróf. Ekkert gjald er tekið fyrir sjúkrapróf, sé það tilkynnt samkvæmt reglum skólans. Standist nemandi hins vegar ekki próf og óskar eftir endurtöku, fellur kostnaður á nemandann. Gjald fyrir upptökupróf þarf að greiða áður en gengið er til prófs inn á reikning skólans, sjá upplýsingar á heimasíðu skólans. Veikist nemandi í prófi ber honum að vekja athygli kennara í yfirsetu, sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn nemandans. Skal læknisvottorði dagsettu sama dag skilað til skólameistara.

Nemendur sem taka upptökupróf þurfa að skrá sig í þau og er unnt að gera það á heimasíðu skólans eða á skrifstofu hans. Ekki er þörf á að skrá sig fyrr en einkunnir hafa birst. Ef eitthvað er óljóst með námsframvinduna eru nemendur hvattir til að hafa samband við skrifstofu skólans.

Ákveðnar reglur gilda um lengri próftíma, sbr. texti hér að neðan.

Rétt er að geta þess að unnt verður að heimila nemendum að taka próf utan prófstofu skólans. Það skal gert í samráði við skólameistara og á helst við þegar nemandi býr erlendis eða á landsbyggðinni.

Einkunnir verða birtar undir áfanganum á Moodle. Nemendur eiga kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara. Auglýstur prófsýningardagur er á heimasíðu skólans.

Nemendur og forráðamenn þeirra eru hvattir til að hafa samband við skólameistara ef eitthvað er óljóst varðandi próf og námsframvindu.


Lengri próftími

Nemendur geta sótt um að fá lengingu á próftíma í lokaprófum sem nemur auka 15 mínútum á hverja klukkustund í prófi. Sækja þarf um lengingu próftíma til skólameistara.

 

Nemendur geta þurft lengri próftíma af eftirfarandi ástæðum:

  • hafa greinst með sértæka námsörðugleika s.s. deslexíu,
  • hafa búið lengi erlendis,
  • eru af erlendu bergi brotnir,
  • eru haldnir miklum prófkvíða,
  • eiga við langvarandi veikindi að stríða eða tilfallandi,
  • hafa aðrar greiningar sem eru hamlandi í námi þeirra.

 

Umsókn um lengingu próftíma þarf að tilkynna strax í upphafi náms. Sótt er um lengingu próftíma undir flýtileiðir/skrá sérúrræði á heimasíðu skólans.


Sértækir námsörðugleikar, aðrar greiningar:

  • nemendur þurfa að skila greiningu til skólameistara.

Prófkvíði:

  • nemendur þurfa að skila vottorði frá sálfræðingi/geðlækni um prófkvíða.

Veikindi:

  • nemendur geta sótt um lengri próftíma vegna langvarandi veikinda eða tímabundinna veikinda/erfiðleika og skila læknisvottorði.Last modified: Thursday, 6 October 2016, 10:34 PM