Sjálfsmat og gæðamál

Hverjum framhaldsskóla landsins er gert að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði síns skólastarfs. Aðalnámskrá framhaldsskóla almennur hluti, kveður á um að innra mat skuli ná til allra þátta skólastarfsins s.s. stjórnunar, kennslu, námskrafna, námsmats og samskipta innan sem utan skólans. Í fyrrnefndu riti er einnig kveðið á um sex grunnþætti menntunar, sem einnig marka þau viðmið sem sett eru í skólastarfi, sbr. kafli 2.

Á grundvelli framhaldsskólalaga sbr. lög nr. 92/2008, 40. gr., telur Nýja Akademían brýnt að fram fari innra mat á starfsemi skólans ár hvert. Tilgangurinn er að auðvelda vinnu við framgang markmiða og meta hvort þeim hafi verið náð, endurskoða þau og stuðla að umbótum. Nemendur jafnt sem kennarar verða m.a. beðnir um að leggja mat á reynslu sína af kennsluháttum, námsgögnum, námsmati o.fl. Stjórn skólans er jafnframt gæðaráð skólans. Stjórnin fundar reglulega um einstök málefni skólans og vill með því tryggja að stjórnun og stjórnunarákvarðanir verði markvissar og gegnsæjar. Í árlegri starfsáætlun Nýju Akademíunnar mun verða gerð grein fyrir markmiðum skólastarfs hvers árs. 


Matsspurningar

Nýja Akademían mun spyrja spurninga sem notaðar verða sem leiðarsteinn við mat á gögnum sem fyrir munu liggja.

 

Eftirfarandi upptalning er m.a. það sem skólinn mun mjög ákveðið leita svara við:

1.       Hvernig eru samskipti stjórnenda og annarra starfsmanna?

2.       Eru nemendur að taka framförum í námi?

3.       Líður nemendum vel?

4.       Ríkir góður starfsandi innan skólans að mati starfsmanna?

5.       Hvernig stöndum við okkur?

6.       Hvað gerum við næst?

7.       Hverjar eru sterku og veiku hliðar kennslunnar og námsins í heild?

8.       Hvað þarf að leggja áherslu á til að viðhalda eða auka gæði námsins?

9.       Er skólanámskráin í takt við breytta tíma?

10.     Er aðbúnaður nemenda og starfsfólks í lagi?

 

Þættir eins og námsárangur, þjónusta við nemendur, áhrif starfsfólks á skólastarfið, mat á kennslunni og náminu, skólanámskráin, stefnumótun, áætlanagerð og fjármál, forysta og stjórnun og að lokum samstarf eru þættir sem verða rýndir. Lagt verður mat á markmið og leiðir með reglubundnum hætti. Leitast verður við að finna þær matsaðferðir sem henta best hverju sinni.

 

Gögn og aðferðir

Fjölbreytni verður höfð í fyrirrúmi þegar kemur að því að vinna við innra mat skólans. Vefurinn og heimasíða skólans verður nýtt til að leggja fyrir kannanir og spurningalista. Bæði nemendur og starfsmenn munu lenda í úrtaki. Úrtak fyrir mælingu er tilviljanaúrtak til að ná fram sem gleggstri mynd af líðan starfsfólks og nemenda. Nám og námsárangur verður metinn á fjölbreyttan hátt, til að öðlast sýn á hvort eðlilegar framfarir séu í námi nemenda. Innra mat Nýju Akademíunnar byggist á kerfisbundinni aðferð. Viðfangsefnin eru mörg og í starfsáætlun skólans, fyrir hvert ár, verða þau kynnt, greind og metin með reglulegu millibili.


Á vegum Nýju Akademíunnar verða eftirfarandi greiningar framkvæmdar:

 • starfsmannaviðtöl,
 • starfsmannakönnun, starfsandi og líðan,
 • skólapúls,
 • rýmingaráætlun æfð og endurskoðuð,
 • starfsáætlun,
 • áfallaáætlun,
 • vímuvarnaráætlun,
 • umhverfismál,
 • innra mat Nýju Akademíunnar.

 Kannanir á vegum ríkisins og annarra aðila, sem eru opinber gögn og birt á heimasíðu skólans:

 • mennta- og menningarmálaráðuneytið, ytra mat,
 • heilbrigðiseftirlitið, árlegt eftirlit með ástandi húsnæðis og aðbúnaði,
 • slökkvilið, árleg úttekt á húsnæði m.t.t. eldvarna,
 • foreldrafélag Nýju Akademíunnar, samanburðarkönnun á starfsáætlunum og námsskrám.

 

Áherslur, úrbætur og áframhald innra mats

Gerð verður matsáætlun til fimm ára, þar sem fram munu koma þeir þættir skólastarfsins sem árlega verða metnir. Áætlun þessi mun verða í stöðugri endurskoðun. Tillögur um úrbætur og áherslur fyrir næstkomandi ár verða lagðar fram í framhaldi af niðurstöðunum. Metnaður skólans í að halda uppi hámarks kennslugæðum á hverjum tíma á að tryggja, að árlega muni fara fram þetta endurmat á starfsháttum og rýni á kennslugæði skólans. Nýja Akademían áætlar að velja til þess 3ja manna nefnd, sem skipuð verður tveimur fulltrúum frá Nýju Akademíunni, ásamt utanaðkomandi fagaðila. Mennta- og menningarmálaráðuneytinu mun verða gefinn kostur á að eiga sæti í nefndinni.

Niðurstöður varðandi heildarmat og skipulag verða opinberar sbr. 41. gr. VII. kafla í lögum um framhaldsskóla nr. 92, 12. júní 2008.


Innra mat brauta

Nauðsynlegt er að á hverju ári fari fram innra mat á starfsemi allra brauta Nýju Akademíunnar til að gera stjórnendum og kennurum auðveldara að vinna að framgangi markmiða og meta hvort þeim hafi verði nám, endurskoða þau og stuðla að umbótum. Sjálfsmat skapar faglegan grundvöll fyrir umbætur og er ætlað að draga fram sterkar og veikar hliðar starfsins sem fram fer á brautunum. Nemendur brautarinnar munu leggja mat á reynslu sína af kennsluháttum, námsgögnum, námsmati o.s.frv. Niðurstöður verða birtar í skýrslu skólameistara í árslok. Verður þar miðað við að niðurstöður varði heildarmat og skipulag s.s. meginmarkmið, verkefni, vinnuálag, inntak, námsmat, gögn o.fl. og verði opinberar. Það er síðan í verkahring skólameistara að koma með tillögur um viðbrögð ef við á.


Last modified: Sunday, 9 October 2016, 12:05 PM