Almennt um nám við Nýju Akademíuna

Inngangur og skilgreining náms

Í brautarlýsingu Nýju Akademíunnar, er að finna útfærslu á sýn skólans á námi á framhaldsskólastigi. Námið er skilgreint eftir hæfniþrepum framhaldsnáms og eftirfarandi viðmið höfð um allt námið, þ.e.a.s. þekking, hæfni og leikni. Þessir þættir ásamt grunnþáttum menntunar, læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð og að lokum sköpun, eru þær stoðir sem Nýja Akademían mun byggja á.

Skóli í netheimum

Framboð brauta og áfanga miðast við tvíþætt hlutverk. Nýja Akademían mun leitast við að auka dýpt námsins á afmörkuðum sviðum t.d. með tilliti til áætlaðs háskólanáms eða til sérhæfðra starfa á vinnumarkaði. Jafnframt að gefa kost á almennri breidd í námi. 

Auk stærðfræði mun tölvunotkun og upplýsingatækni skipa veigamikinn sess í námsgreinunum skólans og leggur skólinn áherslu á aðgang nemenda að tölvum og þekkingu og notkun á kennsluforritum á borð við Word, Excel og Power Point. Notkun hefðbundinna kennsluforrita er órjúfanlegur hluti námsins og í flestum áföngum byggist námsmat bæði á vinnu nemandans yfir tímabilið og lokaprófi í lok þess. Mikilvægt er að nemendur hafi tíma til að stunda nám sitt.

Nýja Akademían verður skóli í netheimum og gerir því kröfur um að nemendur beri ábyrgð á námi sínu og skapi sér viðunandi starfsaðstöðu og aðbúnað til að stunda námið. Þegar nemendur hefja nám hjá Nýju Akademíunni, fá þeir aðgang að tölvukerfi skólans og Moodle.

Hér á heimasíðu skólans geta nemendur nálgast upplýsingar um áfangana, bókalista og á Moodle geta nemendur skoðað námsferil sinn.

Námsbrautin: Opið stúdentspróf

Gert er ráð fyrir einstaklingsmiðuðu námi í samræmi við þarfir einstakra nemenda. Fylgst verður með nemendum frá upphafi náms og staða hvers nemanda vegin og metin og ráðgjöf veitt um áframhaldandi nám.

Kennsluaðferðir verða verkefnamiðaðar. Allt nám mun fara fram í fjarnámi. Kennsla og samskipti við kennara fer fram á vefnum þar sem kennarar leiðbeina nemendum og aðstoða. Námið er hugsað sem sjálfsnám og krefst umtalsverðs sjálfsaga og skipulagningar. Þetta er bóklegt nám sem nemendur taka utan skólastofunnar. Þannig geta einstaklingar stundað framhaldsskólanám óháð stað og stund. Á þetta sérstaklega við um nemendur í dreifbýli, vegna fækkandi námskosta þeirra í héraði. Nemendur taka lokpróf sín í skólanum í þeim áföngum sem gera kröfu á lokapróf.

Einnig verður að telja nám Nýju Akademíunnar vænlegan kost fyrir nemendur, sem vilja stunda nám með vinnu eða hafa ekki tök á að mæta í skóla á almennum skólatíma. Hér má nefna afreksíþróttafólk eða einstaklinga, sem vegna veikinda eiga örðugt með nám í opinberum framhaldsskólum landsins. Þetta er jafnframt hentugt nám fyrir eldri nemendur, sem ekki eiga greiðan aðgang að opinberum framhaldsskólum og fyrir grunnskólanemendur. Fyrir nemendur sem vilja stytta námstíma sinn þá er þetta jafnframt góður kostur.

Hér að neðan má sjá námsbraut Nýju Akademíunnar. 

Opin stúdentsbraut / O-braut er námsleið á þriðja þrepi. Það þýðir að meðalnámstími er rúmlega 36 mánuðir í hefðbundnum dagskóla. Stúdentsnám á þriðja þrepi er breiður 100 fein kjarni. Nemendur velja síðan aðrar 100 fein úr öllu námsframboði skólans eða sækja um mat á öðru námi. Samtals gera þetta 200 fein.

Last modified: Wednesday, 3 February 2021, 8:32 PM