Tengsl námsins við atvinnulíf og önnur skólastig

Framhaldsskólaprófi er ætlað að koma til móts við þá áherslu að nemendur njóti fræðsluskyldu til 18 ára aldurs. Námið einkennist af almennum undirbúningi undir störf í atvinnulífinu eða  áframhaldandi nám. Áfangar U-brautar eru í flestum tilvikum metnir inn á O-braut skólans þ.e.a.s. hafi nemandi hug á að halda áfram námi. Falla þeir kjarna- og valáfangar sem nemandi tók á U-braut þá í flestum tilfellum sjálfkrafa inn á O-braut. Nemandinn telst þá skráður á O-braut.  Þannig getur nám nemandans hafist á U-braut en lokið á O-braut, þ.e.a.s. ef hann kýs að halda áfram námi.


Undirstaða fyrir aðrar brautir eða störf á vinnumarkaði

U-braut er uppbyggð og hönnuð með það í huga að vinna að því að samfélagið fái vel menntaða og heilbrigða einstaklinga til starfa. Áfangar á borð við lífsleikni, fjármálalæsi, upplýsingatækni, kynningu á vinnumarkaðsfræði, félagsfræði, stærðfræði og bókfærslu eru skólabókardæmi um hugmyndafræðina á bak við grunnþættina. Í ofangreindum áföngum er unnið að samfélagslegum markmiðum, þ.e. markmiðum sem stuðla að því að hafa áhrif á samfélagið til betri vegar og um leið mennta sérhvern nemanda á þann hátt að hann verði hæfur einstaklingur. Hæfur til að takast á við viðfangsefni á borð við sjálfbærni, lýðræði, mannréttindi og jafnrétti.

Með því að bjóða nemenda upp á áfanga á borð við upplýsingatækni, verður nemandinn ekki aðeins læs á hið hefðbundna prentmál, heldur jafnframt á hina stafrænu samskiptatækni, sem er víða ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks.

Grunnþátturinn sköpun er áberandi í mörgum áföngum U-brautar Nýju Akademíunnar. Mörg verkefni áfanganna snúast um að virkja ímyndunarafl nemenda, finna nýjar lausnir á viðfangsefnum og leita að nýjum kostum, þar sem tölvan og tölvutæknin spilar viðamikið hlutverk.

Stafrænt læsi og miðlalæsi er í fyrirrúmi í því netumhverfi sem skólinn býr við. Lykilhæfnin hér felur m.a. í sér, að nemandinn verður læs á upplýsingar frá ólíkum miðlum og getur þar með nýtt sér þekkingu sína, sér og öðrum til framdráttar.

Þannig verður nemandinn virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi. Hann getur jafnframt tengt þekkingu sína og leikni við daglegt líf, tækni og vísindi. Nemandi sem staðist hefur námskröfur skólans og brautarinnar, mun að námi loknu eiga kost á ófaglærðum störfum eða frekara námi hjá Nýju Akademíunni. Að loknu námi verða nemendur hvattir til að halda áfram námi sínu, halda áfram upp á næsta stig þekkingar, hæfni og leikni.

 


Last modified: Saturday, 15 October 2016, 4:39 PM