Grunnþættir menntunar og lykilhæfni

Gerð er krafa um að framhaldsskólar skipuleggi námsbrautir sínar þannig að ákveðnum lykilhæfnimarkmiðum verði náð.

 

Unnið er með grunnþætti og lykilhæfni á eftirfarandi hátt á O-braut skólans:

Heilbrigði: Á námsbrautinni er unnið með heilbrigði. Nemendur eru hvattir til að stunda heilbrigt líf í áföngum á borð við íþróttir. Einnig eru nemendur hvattir til að fylgja settri forvarnarstefnu skólans til að taka heilbrigðar ákvarðanir í lífinu.

Jafnrétti: Nemendum er boðið upp á nám við hæfi hvers og eins. Þeir eru hvattir til að fagna fjölbreytileikanum í þjóðfélaginu í áfanga á borð við lífsleikni og lögfræði. Í öllum áföngum Nýju Akademíunnar geta fatlaðir og ófatlaðir nemendur unnið saman.

Lýðræði og mannréttindi: Nemendur eru hvattir til að hafa skoðanir á málefnum daglegs lífs, náminu og skólanum og taka tillit til þeirra við alla ákvarðanatöku. Valáfangi og undirstöðuáfangi í lögfræði kennir nemendum m.a. að álykta um almenn réttindi sín, álykta um samskipti við yfirvöld og aðra opinbera aðila og þjálfa nemendur í lýðræðislegu gildismati.

Menntun til sjálfbærni: Á O-braut er unnið með það að þjálfa nemendur í að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir, bæði munnlega og skriflega. Áfangar á borð við umhverfisfræði og félagsfræði þjálfa nemendur í að efla menningarlæsi sitt og fjalla um mismunandi samfélög og menningarhópa. Upplýsingatæknin þjálfar nemendur í að nýta sér margvíslega tækni til þekkingarleitar og stærðfræðin og tölfræðin þjálfa nemendur í að afla sér gagna, flokka og nýta sér upplýsingar á gangrýninn hátt.

Skapandi hugsun og hagnýting þekkingar: Á O-braut eru nemendur hvattir til að sýna frumkvæði í verkefnavinnu. Þeim er uppálagt að velja sér fjölbreytta valáfanga.

Læsi, tjáning og samskipti á íslensku: Óhætt er að fullyrða að allir áfangar brautarinnar gera þá kröfu, að nemendur verði færir um að tjá sig á margvíslegan hátt um námsefnið.

Læsi, tjáning og samskipti á erlendum tungumálum: Tilgangur tungumálakennslu brautarinnar er sá að nemendur geti lesið, tjáð sig og skrifað á viðunandi hátt.

Læsi, tjáning og samskipti varðandi tölur og upplýsingar: Unnið er með þennan grunnþátt á þann hátt, að nemendur muni öðlast tölfræðilegt læsi til að geta lesið og sett fram rannsóknar-niðurstöður með gagnrýnu hugarfari og séu jafnframt færir um að beita fræðilegri hugsun og aðferðum við greiningu viðfangsefna, öflun upplýsinga, mat, úrvinnslu og túlkun.

Það er mat skólameistara Nýju Akademíunnar, að öllum þessum lykilhæfniþáttum séu gerð skil í heildarskipulagi O-brautar og að þessir þættir komi jafnframt skýrt í ljós í öllum áfangalýsingum, þótt augljóst sé að þeir náist ekki allir í hverri námsgrein.


Last modified: Monday, 17 October 2016, 5:10 PM