Moodle

Moodle og heimasíða skólans

Kennslan mun fara fram í kennsluumhverfi á netinu, sem nefnist Moodle. Í Moodle er hver áfangi með sitt afmarkaða svæði, nokkurs konar kennslustofu í netheimum, þar sem nemandi er í tengslum við kennara sinn og samnemendur. Þangað sækja nemendur allt sitt efni, þar á meðal námsframvindu sína.

Nemendur fá sérstök lykilorð til að komast inn á Moodle. Sé nemandi yngri en 18 ára geta forráðamenn hans einnig fengið lykilorð, sem veitir aðgang að sömu upplýsingum. Forráðamenn geta enn fremur fengið upplýsingar um námsframvindu, eða annað það sem tengist námi einstaklingsins, með því að hafa samband við skólastjórnendur.

Þegar nemandi hefur náð sjálfræðisaldri, er einungis heimilt að veita honum sjálfum eða þeim sem nemandinn veitir skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða hann persónulega.

 

Í Moodle skráir kennarinn inn það efni, sem nemandinn þarf til námsins s.s.:

  • námsáætlun,
  • tímaáætlun,
  • námsefni,
  • verkefni,
  • próf,
  • einkunnir,
  • gagnvirkar æfingar.

 

Í kennslukerfinu verður unnt að senda tölvupóst til kennara og samnemenda og jafnframt að taka þátt í umræðum og spjalli á netinu.

Á heimasíðu skólans munu nemendur geta nálgast almennar upplýsingar um námið og skólann. Þar er að finna upplýsingar um námsbrautir, áfanga, starfsfólk o.fl.

Vefslóð skólans er www.nak.is.